Prenta  

Ekkert hatur: um góða orðræðu á netinu

ekkert-hatur
 

Öll höfum við rétt til þess að tjá okkur í bæði ræðu og riti. Netið býður upp á marga möguleika til að deila skoðunum og eiga samskipti. Þetta gerum við á vettvangi sem hefur engar landfræðilegar takmarkanir og er opinn öllum sem hafa aðgang að netinu. Oft sjáum við athugasemdir við ýmsar fréttir á vefmiðlum þar sem fólk lætur í ljós skoðanir sínar sem eiga það til að vera niðrandi, óréttlátar, dónalegar og sumar þeirra hreinlega teljast til hatursáróðurs.

Hatursáróður getur verið skaðlegur

Með hatursáróðri er átt við illgjarnan áróður sem beint er að einstaklingum eða hópi fólks og er á einhvern hátt óréttlátur, yfirþyrmandi, dómharður og jafnvel skaðlegur. Umræðan um hatursáróður á netinu er mikilvæg, sérstaklega þar sem samfélagið sem við búum í verður sífellt fjölbreyttara hvað trúarbrögð, uppruna og kynhneigð varðar. Oftar en ekki beinist hatursáróður að minnihlutahópum eins og innflytjendum, trúarhópum, samkynhneigðum og öðrum sem á einhvern hátt skera sig úr.

Orðum fylgir ábyrgð

Línan a milli hatursáróðurs og tjáningarfrelsis er hárfín. Sérfræðingar vilja meina að hatursáróður á netinu fari vaxandi þar sem möguleikarnir til að dreifa honum verða sífellt fleiri, m.a. á samfélagsmiðlum, blogg- og spjallsíðum og spjallsvæðum tölvuleikja. Oft er erfitt að koma í veg fyrir áróður af þessu tagi þar sem umræðan á sér stað innan lokaðra hópa.

Mikilvægt er að temja sér gott orðfæri á netinu sem og annars staðar og hafa í huga að orð eru til alls fyrst og þeim fylgir ábyrgð. Óvönduð orðræða getur valdið skaða og þjáningu og í sumum tilfellum varðar hún við lög. Hugsum áður en við sendum!

 

Sólveig Karlsdóttir

Verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT

 

Til baka

 
 

Ármúli 11, Reykjavik, 108, IS
S:(+354) 555 7080

Fylgdu okkur á

 
© 2018 Dale Carnegie & Associates, Inc.. Allur réttur áskilinn.
Vefsíða hönnuð og þróuð af Americaneagle.com