Prenta  

Hrannar Pétursson Vodafone

19 mars, 2012 09:07
hrannar_pétursson_vodafone
 
Hver var megin ástæða þess að markaðsmál og starfsmannamál voru færð undir eitt svið?
Með skipulagsbreytingunni er ætlunin að skerpa fókusinn á ýmsum málum og gefa öðrum meira vægi. Á samskiptasviði eru þannig sameinuð samskipti við markaðinn (markaðsmál), samskipti við starfsmenn (starfsmannamál), samskipti við fjölmiðla (almannatengsl) og samskipti við stofnanir (lögfræðimál). Okkar skoðun er sú, að ýmislegt sé sameiginlegt með öllum þessum málaflokkum sem sjaldnast eru þó undir sama hatti í skipuriti. Í öllum tilvikum er verið að vinna með samskipti milli fólks.
 
Hverju á breytingin að skila?
Áður voru ofangreindir málaflokkar á fjórum mismundandi stöðum í skipuritinu hjá okkur. Starfsmannamál voru hluti af fjármálasviði, markaðsstarf var unnið bæði á fyrirtækja- og einstaklingssviði á meðan lögfræðimál og almannatengsl heyrðu undir skrifstofu forstjóra. Breytingin á að tryggja aukið samræmi í markaðsstarfinu okkar, en við höfum að sumu leyti talað tveimur ólíkum röddum úti á markaðnum – annars vegar til fyrirtækja og hins vegar til einstaklingaskila. Að sama skapi ætlum við að skapa meiri samhljóm með markaðsmálum og almannatengslastarfinu okkar og teljum þetta sannarlega vera skref í þá átt.
 
Nú virðast markaðsmál og starfsmannamál vera ólíkir málaflokkar. Hvernig leggst það í þig að stjórna hvoru tveggja?
Fyrir mér eru þetta náskyldir málaflokkar. Í báðum tilvikum er markmiðið að stuðla að tiltekinni hegðun fólks og hvetja til tiltekinna viðhorfa. Ég vil þannig nýta markaðshugsunina inn á við og rækta markvisst vinnustaðamenningu sem við teljum henta fyrirtækinu, greininni sem við störfum í og þeim stóra hópi frábærs starfsfólks sem hér starfar. Við viljum vekja athygli innanhúss á því sem gert er í starfsmannamálum, en þau mál hafa stundum verið unnin í óþarflega mikilli kyrrþey. Við sjáum t.d. á vinnustaðagreiningum, að starfsmenn eru í mörgum tilvikum ekki upplýstir um ýmsa þætti sem snúa að starfseminni. Til að nefna eitt dæmi, þá var fjöldi námskeiða og fræðslustunda hjá Vodafone fleiri á síðasta ári en nokkru sinni fyrr. Nýjasta vinnustaðagreiningin sýnir hins vegar, að fólki fannst lítil fræðsla vera í boði, sem hlýtur að vera til merkis um að við kynnum málin ekki nægilega vel innanhúss. Svipað sjáum við þegar spurt um tækifæri til starfsþróunar innanhúss, en þar skorum við að mínu mati mun lægra en efni standa til því hér eru óteljandi dæmi um fólk sem hefur þróast í starfi á jákvæðan hátt.
 
Sérðu fyrir þér að það reyni á þig sem stjórnanda á ólíkan hátt?
Sannarlega er þetta breyting frá því sem áður var og fólk sem áður var á öðrum sviðum eru örugglega að upplifa annan stjórnunarstíl en það er vant. Ég er reyndar það heppinn, að hafa unnið með nánast öllum sem nú eru á nýja sviðinu og við þekkjum hvert annað nokkuð vel. Vissulega er ég að takast á við ný verkefni og það mun vafalaust reyna á mig, en hópurinn er sterkur og ég er sannfærður um að í sameiningu eigum við eftir að góða hluti.
 
Nú er Vodafone fyrirferðamikið fyrirtæki þegar kemur að markaðsmálum. Hvaða vægi munu starfsmannamálin hafa á sviðinu?
Starfsmannamálin munu hafa mikið vægi á sviðinu. Málaflokkurinn tilheyrði áður fjármálasviði, en slíkt fyrirkomulag er nokkuð algengt. Það reyndist okkur vel á sínum tíma, en liður í breytingunum nú er að gefa starfsmannamálum meira vægi. Nýja sviðið mun vinna markvisst þvert á öll önnur svið og ég held að starfsmannamál eigi í okkar tilviki mun meira skylt með markaðsmálum en fjármálum og rekstri. Að teknu tilliti til okkar vinnustaðakúltúrs.
 
Hvernig munu viðskiptavinir Vodafone verða varir við breytinguna?
Þeir mega búast við meiri samhljómi í markaðssetningu okkar og vonandi þjónustuviðmóti. Þar búum við reyndar vel, því almennt fáum við mjög góð viðbrögð frá viðskiptavinum varðandi viðhorf starfsmanna og þá þjónustu við veitum. Markmið Vodafone er að eiga ánægðustu viðskiptavini á Íslandi, en því markmiði náum við aldrei ef starfsfólkið er ekki ánægt. Góður starfsandi og jákvæð vinnustaðamenning er forsendan fyrir góðum rekstri.
 

Til baka

 
 

Ármúli 11, Reykjavik, 108, IS
S:(+354) 555 7080

Fylgdu okkur á

 
© 2018 Dale Carnegie & Associates, Inc.. Allur réttur áskilinn.
Vefsíða hönnuð og þróuð af Americaneagle.com