Prenta  

Tengsl líðanar og hegðunar. Til umhugsunar fyrir stjórnendur fólks sem hefur verið snúið til vinnu.

18 júní, 2015 09:09
Réttlætistilfinningin er ein sú sterkasta sem við upplifum.  Það að eitthvað sé óréttlátt eða að við séum beitt misrétti kallar fram gríðarlega neikvæðar hugsanir sem við svo mögnum upp þar til vanlíðanin er algjör og í kjölfarið hegðum við okkur á hátt sem við erum ekki alltaf stolt af.

Þessa dagana snúa aftur til vinnu hópur fólks sem er ósátt, reitt og sennilega með kollinn fullan af neikvæðum hugsunum um vinnuna og annað tengt henni.  Ég ímynda mér að stemmingin sé ekkert allt of góð á þessum vinnustöðum og leyfir mér jafnvel að efast um að afköstin séu neitt til að hrópa húrra fyrir.

Er eitthvað sem stjórnendur geta gert til þess að bregðast við þessu viðkvæma máli?

Við sem höfum verið í því hlutverki að bregðast við erfiðum aðstæðum og að taka á viðkvæmum málum með fólki sem er á barmi þess að missa tökin sökum tilfinningalegs ójafnvægis vitum að hlutirnir geta mjög auðveldlega tekið óvænta stefnu og jafnvel snúist þannig í höndunum á okkur þannig að betur hefði verið heima setið en af stað farið.

Það sem getur skilið á milli þess að vel takst til og þess að hlutirnir fari í óefni er samband stjórnandans við starfsfólkið.  Traustið sem ríkir, hlustunarhæfni, næmnin á líðan og hæfnin til að setja sig í spor annarra eru gulls í gildi í aðstæðum sem þessum.  Þessir hæfnisþættir flokkast yfirleitt undir tilfinningagreind og eru ekki sjálfgefnir í fari þeirra sem hafa klifið metorðastigann og bera nú ábyrgð stjórnandans.  En hér gilda s.s. gömlu góðu gildin um að sýna fólki áhuga, spyrja það hvernig því líður, leyfa fólki að tala, hlusta til að skilja en ekki til að svara eða hafa skoðun og þannig að láta fólk finna að það skipti máli.

Í metnaðarfullu starfsumhverfi þar sem rekstrarniðurstöður eru efst í sinni þá vill þetta  gleymast og því hvet ég alla stjórnendur til að gefa þessu gaum, setja þetta í forgang og þannig gera sitt besta til að lágmarka  neikvæðni og vanlíðan starfsfólksins.  Þannig er líklegast að við höfum jákvæð áhrif á fólkið okkar og hjálpum því að líða betur í þessum óheppilegu aðstæðum.

Unnur Magnúsdóttir, eigandi Dale Carnegie á Íslandi

 

Til baka

 
 

Ármúli 11, Reykjavik, 108, IS
S:(+354) 555 7080

Fylgdu okkur á

 
© 2018 Dale Carnegie & Associates, Inc.. Allur réttur áskilinn.
Vefsíða hönnuð og þróuð af Americaneagle.com