Prenta  

Samningatækni fyrir stjórnendur

communication_negotiation

Fyrir stjórnendur skiptir öllu máli að beita samningatækni sem leiðir til þeirrar niðurstöðu að allir vinna. Sú tækni getur líka verið mikilvæg til að hafa jákvæð áhrif á samstarfsmenn og stuðla að jákvæðum samskiptum. Hér eru sex atriði sem stjórnendur ættu að hafa í huga er þeir undirbúa samningaviðræður.

1. Þú þarft að vita hvað þú vilt – Sem stjórnandi er mikilvægt að fara inn í samningaviðræður með skýra hugmynd um hver þú vilt að niðurstaðan verði. Gættu þess að eyða nægum tíma og hugsun í að ákveða hvað þú vilt og hvers vegna þú vilt það. Mundu að það er mikilvægt að hugleiða hver ávinningur þinn er, fjárhagslegur, tilfinningalegur, vitsmunalegur, líkamlegur o.s.frv. Það hjálpar þér líka að uppgötva hvað þú vilt þegar þú ferð dýpra inn í samningaferlið.
 
2. Þú þarft að vita hvað mótaðilinn vill – Mótaðilinn er líka með sín markmið sem hann eða hún setur á oddinn í viðræðunum. Leggðu kapp á að gera þér grein fyrir því fyrirfram eftir hverju hann eða hún sækist sem niðurstöðu samninganna. Reyndu að skilja þann ávinning, fjárhagslegan, tilfinningalegan, vitsmunalegan eða líkamlegan, sem mótaðilinn stefnir á að ganga í burtu með frá samningaborðinu.
 
3. Gerðu ráð fyrir andmælum – Samningaferli er ekki alltaf auðvelt. Sem stjórnandi verður þú að skilja að þú kemur til með að mæta andmælum frá starfsmanni þínum. Þú þarft að búa þig undir þetta með því að gera áreiðanleikakönnun fyrir samningafundinn. Gættu þess að hafa viðeigandi gögn til reiðu sem mótaðilinn skilur og eru honum kunnugleg.
 
4. Greindu mörk málamiðlunar – Ákvarðaðu þau atriði sem eru óumsemjanleg af þinni hálfu, hvaða atriði eru ákjósanleg og hvað þú ert tilbúin(n) að gefa eftir. Þú kemur sannarlega ekki til með að fá alltaf öllu þínu framgengt við samningaborðið. Samningaviðræður snúast um að gefa og þiggja og sem stjórnandi þarftu að vera tilbúin(n) að mæta starfsmanni þínum á miðri leið.
 
5. Ákvarðaðu hvenær slíta á viðræðum – Þú þarft að ákvarða þann mögulega punkt í ferlinu þegar ekki verður lengra komist og engin ástæða til að halda samningaviðræðum áfram. Áður en samningaviðræðurnar hefjast þarftu að finna þennan punkt frá þínum sjónarhóli, þegar tímabært er að slíta viðræðum. Þetta er mikilvægasta uppspretta þinnar samningsstöðu. Þú þarft að vera viss um að þú grípir til aðgerða þegar komið er að þessum punkti.
 
6. Æfðu með félaga – Rétt eins og gildir um allar mikilvægar kynningar sem þú hefur haldið þá viltu í þessu tilviki æfa þig. Þú gætir lent í erfiðum samræðum og því er mikilvægt að þú æfir mögulegar útkomur. Með því að æfa með einhverjum öðrum byggirðu upp sjálfstraust og öryggi með kringumstæðurnar og það mun hjálpa þér til að láta samningaviðræðurnar ganga vel fyrir sig.
 
 

Til baka

 
 

Ármúli 11, Reykjavik, 108, IS
S:(+354) 555 7080

Fylgdu okkur á

 
© 2018 Dale Carnegie & Associates, Inc.. Allur réttur áskilinn.
Vefsíða hönnuð og þróuð af Americaneagle.com